Ný sundlaug opnar í Reykjanesbæ

20. júní 2025

Í dag, 20. júní 2025, verður opnuð ný og glæsileg sundlaug í Stapaskóla í Reykjanesbæ.

Opnunarhátíðin hefst klukkan 16:00 þar sem bæjarstjóri mun ávarpa gesti og klippa á borða.

Sundlaugin, sem staðsett er við IceMar höllina, markar tímamót í uppbyggingu íþróttamannvirkja bæjarins. Aðstaðan býður upp á 25 metra innisundlaug, rúmgott pottasvæði með heitum og köldum pottum, gufubað og infrarauðan klefa.

Húsnæðið er um 1.455 fermetrar að grunnfleti og hannað með nýjustu kröfum um notendavæni og orkunýtni. ÍAV var aðalverktaki verksins. Sundlaugarsvæðið á efri hæð nýtur dagsbirtu til fulls með glæsilegu útsýni bæði til norðurs og suðurs.

„Þetta er ekki aðeins sundlaug, heldur heilsulind sem mun þjóna bæði íbúum og gestum Reykjanesbæjar um ókomin ár,” segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, Sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar.

Eftir opnunarhátíðina, þar sem boðið verður upp á veitingar, opnar sundlaugin fyrir almenning klukkan 17:00 og verður opin til 21:30.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

Nánari upplýsingar um viðburðinn og opnunina má finna á vefsíðu Reykjanesbæjar: https://www.reykjanesbaer.is/is/stjornsysla/rnb/frettir/ny-sundlaug-opnar