Föstudaginn 17. janúar 2025 voru fyrstu leiguíbúðir Blævar, nýs íbúðafélags VR, formlega afhentar. Verkefnið er unnið í samstarfi við Íslenska aðalverktaka, sem hafa séð um byggingu 36 leiguíbúða í tveimur fjölbýlishúsum við Silfratjörn í Úlfarsárdal.
Verkefnið byggir á vel reynsluprófuðu fyrirkomulagi Bjargs íbúðafélags og er hluti af markmiði VR um að stuðla að húsnæðisöryggi fyrir félagsfólk sitt og fjölskyldur þeirra. Íbúðirnar eru vandaðar og hannaðar með hagkvæmni og einfaldleika í huga, í óhagnaðardrifnu leigufélagi.
Fjölmiðlar, þingmenn og fulltrúar frá VR, hönnuðum og ÍAV voru viðstaddir afhendingu á fyrstu íbúðunum í janúar, og var síðara fjölbýlishúsið afhent þann 21. febrúar 2025. Endanlegum frágangi á lóð verður lokið í sumar.
ÍAV er stolt af því að hafa tekið þátt í þessu samfélagslega mikilvæga verkefni og þakkar fyrir ánægjulegt samstarf við VR og Blæ.