Síðasta haust hóf ÍAV vinnu við tvöföldun Reykjanesbrautar. Góður gangur er á verkefninu sem snýst um að tvöfalda brautina á 5,6 km kafla milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns ásamt aðliggjandi hliðarvegum.
Verkið felur einnig í sér byggingu fimm brúarmannvirkja og einna undirganga úr stáli, fyrir akandi, gangandi og hjólandi vegfarendur. Við Rauðamel verða gerð mislæg gatnamót en þar er gert ráð fyrir framtíðar byggingarsvæði Hafnarfjarðar.
Stefnt er að því að hleypa umferð á fyrsta kafla tvöföldu brautarinnar með haustinu og undirbúningur við undirlagsvinnu og fráveitu er í fullum gangi.
„Þetta er að vinnast vel og við erum á áætlun. Við erum búin með tvær brýr af fimm og byrjuð á þeirri þriðju og fjórðu. Það verður malbikað í haust og við stefnum að því að hleypa umferð á þennan kafla tvöföldu brautarinnar við Ásvallahverfi í haust ef allt gengur upp,“ segir Einar Hrafn Hjálmarsson, verkefnastjóri Reykjanesbrautar.
Verklok eru áætluð í júní 2026 en umferð um brautina verður opnuð í áföngum þangað til. Svo skemmtilega vill til að það voru einmitt Íslenskir aðalverktakar sem upphaflega byrjuðu að steypa Reykjanesbraut fyrir rúmum sextíu árum.