Ný fjölnota farþegamiðstöð á Skarfabakka

4. nóvember 2024

Mánudaginn 5. júní 2023 var tilkynnt um niðurstöður í samkeppni um byggingu fjölnota farþegamiðstöðvar á Skarfabakka í Sundahöfn. Miðstöðin, sem er hönnuð til að þjóna farþegum skemmtiferðaskipa, mun stórbæta alla aðstöðu og þjónustu á svæðinu. ÍAV, VSÓ og Brokkr stúdíó unnu samkeppnina með tillögu sinni að sveigjanlegri byggingu sem nýtist bæði fyrir farþega og viðburði utan ferðaþjónustutíma.

Byggingin verður um 5.500 fermetrar á tveimur hæðum. Aðstaðan er hönnuð til að mæta fjölbreyttum þörfum, bæði fyrir farþegaskipti og komufarþega. Hún mun einnig starfa sem landamærastöð fyrir bæði Schengen og utan Schengen svæði, með farangursskoðun, öryggisleit og tollaaðstöðu.

Framkvæmdir hafa staðið yfir í allt sumar, og eru vel á veg komnar. Nú þegar er búið að steypa botnplötu í aðalsalnum og í raun er búið að steypa 70% af allri botnplötu hússins , steypuvinna á veggjum hófst í október og er áætlað að uppsteypa á 1.hæð klárist fyrir jól. Áætlað er að miðstöðin verði tilbúin til að taka á móti fyrstu farþegum fyrir sumarið 2026.

Utan háannatíma verður miðstöðin leigð út til ráðstefna og viðburða, þar sem hægt verður að hýsa allt að 940 manns í borðhaldi. Þetta styrkir Reykjavík sem ráðstefnuborg með glæsilegri staðsetningu við sjóinn.